Tíminn og vatnið

Steinn Steinarr

1

Tíminn er eins og vatnið,
og vatnið er kalt og djúpt
eins og vitund mín sjálfs.

Og tíminn er eins og mynd,
sem er máluð af vatninu
og mér til hálfs.

Og tíminn og vatnið
renna veglaust til þurrðar
inn í vitund mín sjálfs.

 
2

Sólin,
sólin var hjá mér,
eins og grannvaxin kona,
á gulum skóm.

Í tvítugu djúpi
svaf trú mín og ást
eins og tvílitt blóm.

Og sólin gekk
yfir grunlaust blómið
á gulum skóm.

 
3

Gagnsæjum vængjum
flýgur vatnið til baka
gegn viðnámi sínu.

Hið rauðgula hnoða,
sem rennur á undan mér,
fylgir engri átt.

Handan blóðþyrstra vara
hins brennandi efnis
vex blóm dauðans.

Á hornréttum fleti
milli hringsins og keilunnar
vex hið hvíta blóm dauðans.


4

Alda, sem brotnar
á eirlitum sandi.
Blær, sem þýtur
í bláu grasi.
Blóm, sem dó.

Eg henti steini
í hvítan múrvegg,
og steinninn hló.

 
5

Vatn, sem rennur
um rauðanótt
út í hyldjúpt haf.

Í dul þína risti
mín dökkbrýnda gleði
sinn ókunna upphafsstaf.

Og sorg mín glitraði
á grunnsævi þínu
eins og gult raf.

 
6

Ég var drúpandi höfuð,
ég var dimmblátt auga,
ég var hvít hönd.

Og líf mitt stóð kyrrt
eins og kringlótt smámynt,
sem er reist upp á rönd.

Og tíminn hvarf
eins og tár, sem fellur
á hvíta hönd.

 
7

Himinninn rignir mér
gagnsæjum teningum
yfir hrapandi jörð.

Dagseldur, ljós,
í kyrrstæðum ótta
gegnum engil hraðans,
eins og gler.

Sofa vængbláar hálfnætur
í þakskeggi mánans,
koma mannstjörnur,
koma stjarnmenn,
koma syfjuð vötn.

Kemur allt,
kemur ekkert,
gróið bylgjandi maurildum,
eins og guð.

Guð.

 
8

Þytur óséðra vængja
fer um rökkvaða sál mína
eins og rautt ljós.

Í nótt mun ég sofa
undir sjöstirndum himni
við hinn óvæða ós.

Meðan rödd þín flýgur
upp af runni hins liðna
eins og rautt ljós.

 
9

Net til að veiða vindinn:

Flýjandi djúpfiski
hlaðið glæru ljósi
einskis.

Sólvængjuð hringvötn
búin holspeglum
fjórvíðra drauma.

Týnd spor
undir kvöldsnjó
efans.

Net til að veiða vindinn:

Eins og svefnhiminn
lagður blysmöskvum
veiðir guð.

 
10

Frá vitund minni
til vara þinna
er veglaust haf.

En draumur minn glóði
í dulkvikri báru,
meðan djúpið svaf.

Og falin sorg mín
nær fundi þínum
eins og firðblátt haf.

 
11

Og hvolfþak hamingju minnar
er úr hvítu ljósi
hinnar fjarlægu sorgar
fljótsins.

Og tunglskin hverfleikans
tollir við hendur mínar
eins og límkenndur vökvi
verðandinnar.

Og myrkur auga míns
berst í mjúkum hlátri
inn í kaldan eld
kvöldsins.

 
12

Eins og blóðjárnaðir hestar
hverfa bláfextar hugsanir mínar
inn um bakdyr eilífðarinnar.

Eins og nýskotnir fuglar
falla nafnlausir dagar
yfir náttstað minn.

Eins og naglblá hönd
rís hin neikvæða játun
upp úr nálægð fjarlægðarinnar.

Meðan andlit mitt sefur
eins og óslokkið kalk
í auga fljótsins.

 
13

Á brennheitt andlit
fellur blátt regn
hinna blævængjuðu daga.

Inn í hugans neind
kemur nóttin
eins og nafnlaus saga.

Og nekt þess, sem er
týnir nálægð sín sjálfs
út í nætur og daga.

 
14

Sólskinið,
stormurinn,
hafið.

Ég hef gengið í grænum sandinum
og grænn sandurinn
var allt í kring um mig
eins og haf í hafinu.

Nei.

Eins og margvængjaður fugl
flýgur hönd mín á brott
inn í fjallið.

Og hönd mín sökkur
eins og sprengja
djúpt inn í fjallið,
og sprengir fjallið.

 
15

Í sólhvítu ljósi
hinna síðhærðu daga
býr svipur þinn.

Eins og tálblátt regn
sé ég tár þín falla
yfir trega minn.

Og fjarlægð þín sefur
í faðmi mínum
í fyrsta sinn.

 
16

Undir þáfjalli tímans,
stóð þögn mín
eins og þroskað ax.

Ég sá sólskinið koma gangandi
eftir gráhvítum veginum,
og hugsun mín gekk til móts við sólskinið,
og sólskinið teygði ljósgult höfuð sitt
yfir vatnsbláan vegg.

Ég sá myrkrið fljúga
eins og málmgerðan fugl
út úr moldbrúnum höndum mínum.

Og þögn mín breyttist
í þungan samhljóm
einskis og alls.

Meðan gljásvart myrkrið
flaug gullnum vængjum
í gegnum sólskinið.

 
17

Á sofinn hvarm þinn
fellur hvít birta
harms míns.

Um hið veglausa haf
læt ég hug minn fljúga
til hvarms þíns.

Svo að hamingja þín
beri hvíta birtu
harms míns.

 
18

Tveir dumbrauðir fiskar
í djúpu vatni.
Dimmblár skuggi
á hvítum vegg.

Fjólublátt ský
yfir fjallsins egg.

Yfir sofandi jörð
hef ég flutt hina hvítu fregn.

Og orð mín féllu
í ísblátt vatnið
eins og vornæturregn.

 
19

Í óræk spor þín
féll ímynduð birta
míns ullhvíta draums.

Ég sá andlit þitt speglast
í innhverfri bylgju
hins öfuga straums.

Og svipur þinn rann
eins og svalkaldur skuggi
milli svefns míns og draums.

 
20

Þögnin rennur
eins og rauður sjór
yfir rödd mína.

Þögnin rennur
eins og ryðbrunnið myrkur
yfir reynd þína.

Þögnin rennur
í þreföldum hring
kringum þögn sína.

 
21

Rennandi vatn,
risblár dagur,
raddlaus nótt.

Ég hef búið mer hvílu
í hálfluktu auga
eilífðarinnar.

Eins og furðuleg blóm
vaxa fjarlægar veraldir
út úr langsvæfum
líkama mínum.

Ég finn myrkrið hverfast
eins og málmkynjað hjól
um möndul ljóssins.

Ég finn mótspyrnu tímans
falla máttvana
gegnum mýkt vatnsins.

Meðan eilífðin horfir
mínum óræða draumi
úr auga sínu.