af Flugum

Jón Thoroddsen

Tjaldiđ Fellur

      Það rignir rósum. Englarnir klappa og hrópa. Guð almáttugur hneigir sig og brosir.
      Ungur, óreyndur engill stenst ekki mátið. Hann veifar vængjunum og æpir: Lengi lifi Guð almáttugur. Hann lifi.
      Himinninn skelfur af húrrahrópum, en Guð almáttugur bítur snöggvast á vörina. Hann er eilífur. Svo brosir hann og hneigir sig.

      Gabríel erkiengill hefur boð inni og heldur aðalræðuna. Honum mælist vel að vanda.
      Leikararnir hafa þvegið sér og haft fataskipti. Þeir eru sóttir, og þeir strjúka hendinni um augun.

      Guð almáttugur stígur niður úr hásæti sínu, og slær kumpánlega á öxl aðalleikarans:
      Þú varst óborganlegur, segir hann, og lítillækkar sjálfan sig.
      Ég skil þetta ekki, segir leikarinn. Hér er glaumur og gleði, en ég kem frá landi hörmunganna.
      Já, þú varst ágætur, segja englarnir.
      Ég efast um, að aðrir hefðu leikið það betur, segir Gabríel erkiengill, og hann ber gott skyn á slíka hluti.
Leikarinn setur hnykk á höfuðið og hlær.
      Það var leikur, segir hann og blístrar. En segðu mér eitt, Guð almáttugur. Af hverju vitum við ekki, að við erum að leika?
      Þegar þið vitið það, leikið þið ekki. Þið setjist bak við tjöldin og horfið á.
      Þetta sagði Guð almáttugur og veislunni var haldið fram.





Vita Nuova

      Úti er dagurinn blár og bjartur, en inni situr sorgin og segir fanganum sögur. Skuggarnir þrypast í hornin og hlusta.
      Sólin hækkar á lofti. Geislarnir, sem skjótast dansandi gegnum járnvarinn gluggann, kyssa burt myrkrið úr klefanum.
      Einn þeirra vogar sér lengra en aðrir. Hann dansar eftir gólfinu, og kyssir á fótinn á Oscari Wilde. Fanginn lítur upp og undrast. Sorgin hættir að segja frá og brosir.
      Oscar Wilde stendur upp og gengur að glugganum. Hann horfir á litlu, bláu röndina, sem fangarnir kalla himin. Og hann sér hvítt ský þjóta eftir himinhafinu.
      Undarlegur söngur vaknar í huga hans. Hann er útlagi, sem á heima handan við hafið. Þar bíður hans eitthvað, sem hann elskar.
      Þú, sem ég elska.
      Ég hrindi bátnum úr nausti, því ég er sjúkur af heimþrá. Og ég hrópa til þín yfir hafið:
      Með hvítum seglum stefnir hann að ströndum þínum, útlaginn, sem elskar þig.





Pan

      Kvæðið byrjar á því, að trjátopparnir kinka kolli eins og til þess að samsinna einhverju, sem ég ekki skil. Þá er það, að Pan fer um skóginn og Pan er ung stúlka. Það er eins og hún hafi enga hugmynd um hættu og rándýrin gera henni heldur ekki neitt. Hún kemur að polli, sem er djúpt inni í skoginum. Enginn hefur komið þar áður. Hún beygir greinarnar til hliðar og lítur niður í pollinn. Og þetta hlýtur að vera undarlegur pollur. Spegilmyndin hverfur ekki þegar stúlkan fer. Hvert? Það veit enginn. En trén hvíslast á í kringum pollinn. Þeim hefur öllum dottið það sama í hug og þau flétta saman greinar sínar.
      Þetta orti kunningi minn og síðan hann kom frá útlöndum talar hann ekki um annað en skóga. Hann yrkir um skóga og líkir þeim við sálir mannanna. Allar aðrar líkingar finnast honum einskis virði. Og þegar hann yrkir, talar hann um hrædda héra, sem ómögulegt sé að komast í færi við, eða þá uglu, sem sitji í holu tré. Hann talar líka um syngjandi fugla.
      Annars kom dálítið fyrir kunningja minn meðan hann var erlendis. Hann hefur sagt mér það eins og svo ótal margt annað, sem hann þykist ekki taka mark á. Hann var í skógarför með mörgu fólki. Hann dansaði mikið og skemmti sér ágætlega. En þegar hann var að dansa við fallegustu stúlkuna, tók hann allt í einu eftir annarri stúlku, sem stóð þar rétt hjá. Hann hafði ekki tekið eftir henni áður og vissi ekki til þess, að hún væri með. Hann sleppti stúlkunni, sem hann var að dansa við og gekk rakleitt til ókunnu stúlkunnar með útréttar hendur, því hann ætlaði að dansa við hana. Hún leit á hann, snéri sér við og gekk hægt inn í skóginn. Kunningi minn var svo utan við sig, að hann elti hana ekki, en hann horfði á eftir henni og sá hana hverfa bak við fjarlæg tré. Hann rankaði við sér þegar stúlkan, sem hann hafði verið að dansa við, lagði höndina á öxlina á honum og spurði hann, hví hann hefði farið svo skyndilega. Hann snéri sér snöggt við, tók höndina af öxl sér og gekk síðan hratt inn í skóginn. Hann leitaði lengi, en hann fann hana ekki.